Félagsheimilið
Skjólbrekka – félagsheimili Mývetninga er eitt glæsilegasta samkomuhús Íslands
Allir hjálpuðust að við að hrinda byggingamálinu í höfn – en mest munaði þó um unga fólkið
Vígsla félagsheimilisins fór fram s.l. laugardag, að viðstöddum félagsmálaráðherra og um 400 öðrum gestum
Á laugardaginn var vígðu Mývetningar veglegt og vandað félagsheimili að Skútustöðum. —Veður var hið ákjósanlegasta ogMývatnssveit skartaði sínu fegursta þennan hátíðisdag. — Fjölmenni var við vígsluna, bæði heimamenn og burtfluttir menn úr sveitinni og ennfremur nokkrir gestir.
Samkvæmt því, sem auglýst hafði verið, hófust hátíðahöldin kl.2 síðdegis. Var þá gengið í kirkju að Skútustöðum og hlýtt messu hjá sóknarprestinum, séra Erni Friðrikssyni. Að messu lokinni var gengið í skrúðgöngu að félagsheimilinu. Þar var aðkoma hin ánægjulegasta, staðurinn fánum skrýddur, bílastæði mikil og góð og húsið sjálft fullgert utan og innan. Má með sanni segja að ekki var kotungsbragur á neinu.
Eftir skamma stund var setzt að vel búnum og fagurlega skreyttum veizluborðum. Nær 400 manns rúmuðust auðveldlega í sætum og nutu ríkulegra veitinga.
Aðalsalur hins nýja félagsheimilis er stór, sérkennilegur og fagur. Málverk á veggjum og vönduð gluggatjöld ásamt fögrum blómum, er eigi þarf langt að sækja, settu vinalegan blæ á salarkynni þau, er eftir skamma stund skyldu vígjast vegulegu hlutverki.
Fyrir öðrum enda er rúmgott leiksvið og undir því búningsklefar, böð og fleira. Fyrir hinum enda salarins er kaffistofa og eldhús í líkri hæð og leiksvæðið. Kaffistofuna má skilja frá aðalsalnum með vængjahurð. Þar uppi yfir er góð íbúð húsvarðar, en í kjallara fataherbergi o. fl. Anddyri er rúmgott.
Veizlustjórinn, Þráinn Þórisson, setti samkomuna, bauð gesti velkomna og lýsti dagskrá.
Byggingin hófst 1952.
Þá flutti Jón Gauti Pétursson oddviti vígsluræðu. Þakkaði hann öllum er lagt höfðu lið þessari stofnun og stutt að því að merkum áfanga væri náð. Gat hann þess að strax árið 1947 hefðu Mývetningar sótt um leyfi fyrir byggingu félagsheimilis og skóla, en verið synjað í 5 ár. Byggingin hófst svo að fengnu leyfi, árið 1952. Þá hafði verið horfið frá hugmyndinni um barnaskólann í sambandi við félagsheimilið.
Ungmennafélagið Mývetningur tók þátt í byggingarkostnaði að einum fjórða hluta á móti hreppnum, en margir aðilar réttu hjálparhönd. Sérstaklega minntist Jón dugnaðar ungmennafélaganna og hins sameiginlega áhuga yngri og eldri manna. Burtfluttir Mývetningar sýndu félagsheimilinu ræktarsemi og kvenfélagið Hringurinn í Mývatnssveit átti einnig sinn góða þátt í framkvæmdunum, svo og fjölmargir aðrir nær og fjær.
Byggt fyrir framtíðina.
Ræðumaður sagði, að margt hefði verið hægt að spara, fram yfir það, sem gert var, en hagur framtíðarinnar yrði hér, sem annars staðar, að sitja í fyrirúmi. Fegurð yrði að ríkja, þar sem hugsjónir ættu að fæðast á komandi árum. Félagsheimili, sem þetta, yrði að vera meira en þak og veggir. Það þyrfti einnig að hafa sál, svo að það mætti vígjast heill og hamingju frá upphafi. Hann óskaði að síðustu að virðing og helgi mætti skapast fyrir þessari nýju stofnun og að störf þau, er þar yrðu unnin, mættu bera ríkulegan ávöxt á sviði félags- og annarra menningarmála.
Ávarp félagsmálaráðherra.
Steingrímur Steinþórsson félagsmálaráðherra tók næstur til máls og rifjaði upp endurminningar frá unglingsárum sínum í Mývatnssveit. M. a. frá þeim sterku áhrifum, sem ungmennafélagsskapurinn hafði á hann, þegar á barnsaldri. Taldi hann það hafa verið eina sína mestu gæfu að hafa notið hans og nokkurra vikna skólagöngu í gamla þinghúsinu á Skútustöðum. Ráðherrann sagði frá því til gamans, að þegar þeir bræður, hann og Þórir, nú skólastjóri í Reykholti, áttu kost á 6 vikna skólagöngu að Skútustöðum, réðist það svo, að Steingrímur fór fyrst, en Þórir var heima og hjálpaði til við gegningar. Síðan skildi svo skipta um; Þá átti Steingrímur að vera við fjárgeymsluna, en Þórir fara í skólann. En ekki voru liðnir nema 2—3 dagar þangað til Steinþór bóndi, faðir þeirra bræðra, sagði við Steingrím, „að það væri víst bezt að hann færi aftur í skólann, því að, hann gerði hvort sem væri ekki annað en horfa út í Skútustaði.” Mun mörgum áheyranda hafa verið hugsað til námsleiðans margumtalaða og ýmis skyld vandamál í sambandi við hina lögskipuðu skólagöngu nútímans. Ráðherrann taldi hið nýja félagsheimili að Skútustöðum eitt glæsilegasta samkomuhús landsins. Hann þakkaði Mývetningum unnið afrek í byggingum og ræktun við erfið skilyrði og þakkaði það rótfestu og félagsþroska fólksins. Bað hann síðan félagsheimilinu allrar blessunar.
Ávarp sendiherra Dana.
Þá tók til máls sendiherra Dana á íslandi, frú Bodil Begtrup. Óskaði hún félagsheimilinu allra heilla í fáum en áhrifaríkum orðum. Hún mælti á íslenzku.
Prófraun ungmennafélaga.
Pétur Jónsson á Gautlöndum hélt ræða vék máli sínu til ungu kynslóðarinnar. Kvað hann byggingu félagsheimilisins hafa verið góða prófraun fyrir ungmennafélaga og allt æskufólk sveitarinnar. Yrði ekki annað sagt en að þeir hefðu staðizt prófið með mestu prýði og hvergi runnið er á hólminn var komið. Hefði það verið sér óblandin ánægja að fylgjast með því, að menn á hans aldri (á áttræðisaldri) og unglingar niður í 12 ára, hefðu tekið höndum saman með svo giftusamlegum árangri.
Kveðjur frá íþróttafulltrúa.
Sigurður Egilsson, byggingameistari á Húsavík, flutti því næst ræðu og Jón Sigurðsson á Arnarvatni bar samkomunni kveðjur og heillaóskir frá íþróttafulltrúa ríkisins, Þorsteini Einarssyni. — Þá voru mörg heillaskeyti, er borizt höfðu af, tilefni vígslunnar, lesin upp og þökkuð. Þorgrímur Starri Björgvinsson flutti ræðu, Þorbjörg Arnadóttir prests frá Skútustöðum minntist gamalla tíma og flutti árnaðaróskir, Gunnar Norland bar fram þakkir fyrir hönd aðkomumanna og enn fluttu ræður. Baldur Baldvinsson á Ófeigsstöðum og Páll Kristjánsson, Húsavík; Jónas Helgason las upp kvæði eftir Kára Tryggvason frá Víðikeri. Veizlustjóri sleit nú borðhaldinu og þakkaði ræður og heillaóskir. Fórst honum veizlustjórnin með ágætum.
Milli ræða var almennur söngur undir stjórn Jónasar Helgasonar á Grænav. Voru nú borð upp tekin og leiksviðið rýmt. Þar fóru síðan fram ýmis skemmtiatriði. Þráinn Þórisson hafði fyrr um daginn óskað eftir nöfnum til viðbótar 50 tillögum um nafn hins nýja félagsheimilis.Var tilskilinn frestur liðinn og nafnið valið.
Heitir Skjólbrekka.
Pétur Jónsson tók næstur til máls og lýsti nafni. Hlaut félagsheimilið nafnið Skjólbrekka. Var því tekið með dynjandi lófaklappi. Stórt málverk prýðir annan enda aðalsalarins. Er það eftir Jóhannes Sigfinnsson á Grímsstöðum, og er af nokkrum hluta Mývatnssveitar, séð frá Skjólbrekku (örnefni í Mývatnssveit). Eftir Jóhannes eru einnig nokkrar mjög fallegar myndir á húsarveggjum salarins.
Kirkjukórar Reykjahlíðarkirkju og Skútustaðakirkju sungu nokkur lög undir stjórn hinna öldnu og virðulegu söngstjóra, Jónasar á Grænavatni og Sigfúsar Hallgrímssonar í Vogum, og síðan söng Karlakór Mývetninga undir stjórn Jónasar Helgasonar. Einsöngvari var Þráinn Þórisson.
Arnljótur Sigurðsson las upp mývetnsk ljóð, Védís Jónsdóttir frá Litlu-Strönd las upp kafla úr ræðu föður síns, Jóns Stefánssonar skálds, er hann flutti 1897 við vígslu gamla þinghússins á Skútustöðum.
Að lokum var glímusýning undir stjórn Haralds Jónssonar á Jaðri. Glímuflokkur þessi er töluvert æfður, og í honum magir ágætir glímumenn. Tókst sýningin ágætlega og er glímuflokkur þessi hinn athyglisverðasti.
Dans var stiginn fram eftir nóttu. Hljómsveit frá Húsavík lék. Vígsluhátíðin var öll hin virðulegasta og mun mörgum minnisstæð.
Margir iðnaðarmenn að verki.
Teikningu að félagsheimilinu gerði Gísli Halldórsson. Sigurður Egilsson, Húsavík, var yfirsmiður, þar til húsið var komið undir þak, en síðan Jón Stefánsson á Öndólfsstöðum. Málningu alla annaðist Jón A. Jónsson frá Akureyri. Raflagnir annaðist Arnljótur Sigurjónsson frá Húsavík. Rörlagnir setti Einar J. Reynis, Húsavík. — Húsið er hitað upp með heitu lofti. Múrhúðun utan annaðist Ríkarður Pálsson.
Glæsilegt félagsheimili.
Ástæða er til að samgleðjast Mývetningum yfir unnum sigri. Félagsheimilið er allt mjög vandað og glæsilegt utan og innan og er Mývetningum til sóma.